Þar segir að fyrir liggi að Eimskip hafi í sátt við Samkeppniseftirlitið (SKE) lýst því yfir að félagið hafi átt í samráði við Samskip sem efnt hafi verið til á fundi 6. júní 2008 og í framhaldi þess fundar.
„Þessi yfirlýsing félagsins er röng og með öllu tilhæfulaus. Þá er það að sama skapi fullkomlega rangt að félögin hafi átt í samráði um breytingar á flutningakerfi, gert með sér samkomulag um skiptingu markaða, um álagningu gjalda eða um afsláttarkjör.“
Segja um að ræða alvarlega atlögu
Samskip segir í tilkynningu sinni að um sé að ræða mjög alvarlega atlögu að Samskipum. Eimskip hafi með þessu ranglega sakað félagið, sem og núverandi og fyrrverandi starfsmenn félagsins og Eimskips, um ólögmæta og eftir atvikum refsiverða háttsemi.
„Rangar sakargiftir af þessum toga eru ólögmætar og þær geta einnig verið refsiverðar fyrir þann sem í hlut á. Í þessu tilviki var þeim beint að helsta keppinauti Eimskips og voru augljóslega til þess fallnar að valda búsifjum í rekstri félagsins og hafa óeðlileg áhrif á samkeppnisstöðu félaganna, Samskipum til tjóns.“
Kemur fram í tilkynningunni að lögmenn Samskipa hafi sent forstjóra Eimskips kröfubréf vegna framangreinds. Þar er þess einnig óskað að upplýst verði hvaða stjórnendur eða stjórnarmenn komu að ákvörðun um að undirgangast sátt við Samkeppniseftirlitið og veita stjórnvaldinu með því rangar upplýsingar, að því er segir í tilkynningu Samskipa.
Áfrýja máli sínu
Þá kemur fram í tilkynningu Samskipa að félagið hafi í dag skilað inn kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 31. ágúst síðastliðnum, um að leggja á Samskip 4,2 milljarða króna sekt fyrri þátttöku í því sem félagið segir meint samráð við Eimskip. Félagið fer fram á að ákvörðunin verði felld úr gildi og réttaráhrifum frestað á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.
„Samskip gagnrýna harðlega ákvörðun Samkeppniseftirlitsins enda er hún efnislega röng og öll málsmeðferðin í brýnni andstöðu við ákvæði samkeppnislaga, sönnunarreglur og fjölmargar grundvallarreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttarins. Félagið telur ljóst að fella verði hina kærðu ákvörðun úr gildi í heild sinni vegna þessara alvarlegu annmarka sem leitt hafi til endurtekinna rangra og haldlausra ályktana stofnunarinnar,“ segir Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa.
Þá segir í tilkynningunni að bent sé á í kæru félagsins að rannsókn og ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sé fordæmalaus fyrir margar sakir. Segir Samskip að þær kenningar og ályktanir sem settar séu fram í ákvörðun eftirlitsins séu í grundvallaratriðum án tengsla við gögn málsins og raunveruleg atvik í rekstri skipafélaganna sem sökuð séu um samráð.
„Þá hafi SKE endurtekið misfarið með efni gagna og horft fram hjá sönnunargögnum og réttmætum skýringum Samskipa og Eimskips sem ekki hafi fallið að kenningum stofnunarinnar. Þá er með sektarfjárhæðinni farið gegn fjölmörgum réttarreglum og ljóst að til grundvallar þeirri ákvörðun liggja engin málefnaleg sjónarmið.“