Íslenski boltinn

Allir titlarnir í sögu úr­slita­keppninnar hafa unnist í sófanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar stóðu heiðursvörð fyrir nýkrýnda Íslandsmeistara Blika í fyrra.
KR-ingar stóðu heiðursvörð fyrir nýkrýnda Íslandsmeistara Blika í fyrra. Vísir/Diego

Víkingar urðu í gær þriðja liðið á síðustu fjórum árum sem verður Íslandsmeistari í sófanum í úrvalsdeild karla í fótbolta.

Blikar í fyrra og Valsmenn haustið 2020 fögnuðu líka Íslandsmeistaratitlinum utan vallar eftir hagstæð úrslit í öðrum leikjum deildarinnar.

Það sem meira er að báðir titlar Bestu deildarinnar í sumar unnust í sófanum og síðan að úrslitakeppnin var tekin upp, í fyrra hjá körlunum og í ár hjá konunum, hafa allir titlarnir í sögu hennar hafa unnist í sófanum.

Valskonur urðu nefnilega líka Íslandsmeistarar í sófanum í sumar. Þær voru líka eins og Víkingar orðnar Íslandsmeistarar þótt að þær ættu eftir að spila fjóra leiki.

Kvennaliðs Vals var því líkt og karlalið Víkinga búið að stinga af þegar kom inn í úrslitakeppnina. Þær urðu síðan meistarar, daginn fyrir sinn leik í annarri umferð úrslitakeppninnar, eftir að Blikum mistókst að vinna Þór/KA.

Stjörnukonur stóðu því heiðursvörð fyrir leik þeirra á móti Val daginn eftir en Stjarnan endaði á því að vinna nýkrýnda Íslandsmeistara í leiknum.

Í fyrra fönguðu Blikar Íslandsmeistaratitli sínum fyrir framan sjónvarpið á Kópavogsvelli. Þeir höfðu unnið 2-1 sigur á KA á Akureyri tveimur dögum fyrir leik Stjörnunnar og Víkings.

Víkingar urðu að vinna í Garðabænum til að eiga enn möguleika á titlinum en Stjarnan vann leikinn 2-1 og tryggði Blikum titilinn.

KR-ingar stóðu heiðursvörð fyrir Blika í næsta leik og enduðu síðan á því að vinna nýkrýnda Íslandsmeistara 1-0.

Samkvæmt þessari upptalningu verður að teljast frekar líklegt að Blikar vinni 1-0 sigur á Víkingum í kvöld en augu knattspyrnuáhugafólks verður örugglega á Kópavogsvelli í kvöld þegar erkifjendurnir mætast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×