GOG greindi frá starfslokum Fog í gærkvöldi en GOG, sem hafði betur gegn Álaborg í úrslitaeinvígi dönsku deildarinnar á síðasta tímabili, er sem stendur í 7. sæti deildarinnar með aðeins þrjú stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.
Í tilkynningu GOG er ástæða starfsloka Fog sögð vera ágreiningur milli hans og félagsins varðandi stefnu félagsins, bæði til lengri tíma en einnig hvernig félagið starfar dag frá degi.
„Við höfum ígrundað þessa ákvörðun vel og teljum nauðsynlegt að grípa til ráðstafana núna. Það er best fyrir félagið,“ segir Kasper Jörgensen, framkvæmastjóri GOG í yfirlýsingu félagsins.
Mikkel Voigt, fyrrum aðstoðarþjálfari félagsins mun sinna starfi aðalþjálfara þess út yfirstandandi tímabil hið minnsta.
Eitt verður þó ekki tekið af Fog, hann er fyrsti þjálfari GOG til þess að stýra liðinu til sigurs í danska ofurbikarnum. Í samtali við DR segist Fog ekki vera reiður vegna ákvörðunar GOG.
„Ég fékk bara að vita af þessu í dag (í gær) en þetta var ekki mikið sjokk fyrir mig. Mér finnst ég hafa fengið stuttan taum í starfi.“