Tvö göt komu í ljós á kví númer átta hjá Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði síðasta sunnudag. Greindi fyrirtækið sjálft frá því í tilkynningu en í kvínni eru 72.522 fiskar. Voru götin hvort um sig 20x30 sentímetrar.
Vísir leitaði viðbragða hjá Fiskistofu vegna málsins. Í kjölfarið birti stofnunin tilkynningu á vef sínum. Þar segir að engir fiskar hafi veiðst í net sem Arctic Fish hafi lagt við sjókvína.
Segir í tilkynningunni að í framhaldi hafi verið viðhaft eftirlit meðal annars með dróna og sást til fiska í Ósá í Patreksfirði þriðjudaginn 22. ágúst. Fiskistofa gerði viðkomandi landeigendum viðvart og mælti fyrir um að Arctic Fish skyldi leggja net í sjó nálægt ósi Ósár, 23. ágúst, og einnig voru net lögð í Ósá. Var það gert og var eftirlitsmaður Fiskistofu með við lagningu neta.
Fjórir laxar veiddust í netin sem allir höfðu eldiseinkenni. Fiskarnir verða afhentir Hafrannsóknastofnun til erfðagreininga og frekari rannsókna í dag.
Segist stofnunin hafa mælt fyrir um það að fleiri net skuli lögð. Áfram verði netaveiði reynd í sjó í Patreksfirði um helgina. Segist stofnunin fylgjast náið með veiðunum og segist hún muna endurmeta þörf fyrir aðgerðir ef tilefni verður til.
Matvælastofnun rannsakar götin
Þá segir í tilkynningu frá Matvælastofnun að stofnunin hafi strax hafið rannsókn á málinu. Sú rannsókn standi yfir.
Segir að rannsókn stofnunarinnar miði að því að finna út ástæðu fyrir götunum, fjölda fiska sem hafi strokið og einnig að kanna hvort innri gæðaferlum fyrirtækisins hafi verið fylgt í hvívetna.
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Matvælastofnun.