Stýrivextir í Rússlandi eru nú tólf prósent eftir hækkunina. Gengi rúblunnar hefur veikst um meira en þriðjung frá upphafi árs og hefur ekki verið lægra í tæpa sautján mánuði. Rúblan styrkti sig aðeins eftir að tilkynnt var um hækkunina en lækkaði aftur eftir því sem leið á daginn, að sögn AP-fréttastofunnar.
Maksim Oreshkin, efnahagsráðgjafi Vladímírs Pútín forseta, kenndi slælegri peningamálastjórn um veikt gengi gjaldmiðilsins í skoðanagrein í gær. Seðlabankinn hefði öll nauðsynleg verkfæri til þess að ná tökum á ástandinu.
Vaxandi útgjöld til hernaðarmála og íþyngjandi viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja vegna innrásarinnar eru sagðar taka sinn toll af rússneska hagkerfinu. Verðbólga undanfarinna þriggja mánaða mælist 7,6 prósent. Seðlabankinn hafði áður hækkað stýrivexti sína um eitt prósentustig í síðasta mánuði til þess að stemma stigu við verðhækkunum.