Maðurinn sem lést hét Karolis Zelenkauskas og var 25 ára gamall litáískur ríkisborgari. Hann hafði verið búsettur hér á landi um nokkurra mánaða skeið. Hann lést eftir einungis eitt höfuðhögg.
Að sögn Eiríks Valbergs, lögreglufulltrúa í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, bíður lögregla enn eftir endanlegri niðurstöðu krufningar en biðin hefur nú varað í rúman mánuð. Hann segir tímann ekki óvenjulegan og þá sérstaklega ekki í flóknum málum líkt og þessum.
Hann segir að skýrslutökum vitna sé lokið. Töluverður fjöldi var á staðnum þegar árásin átti sér stað en Eiríkur segist ekki hafa tölu þeirra sem lögregla ræddi við vegna málsins á hreinu.
„Við höfum sæmilega mynd af því sem gerðist þetta kvöld. Niðurstöður rannsóknarinnar byggja að miklu leyti á niðurstöðu krufningarinnar og þess vegna þurfum við að bíða eftir því, áður en við getum klárað hana að fullu.“
Hinum grunaða í málinu, sem er Íslendingur á þrítugsaldri, var sleppt úr haldi rúmri viku eftir árásina. Hann hefur hins vegar enn réttarstöðu sakbornings. Eiríkur segir hann hafa verið samvinnuþýðan með lögreglu vegna rannsókn málsins.