Handbolti

Verða með japanskan leikmann fjórða tímabilið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shuhei Narayama ásamt Davíð Erni Hlöðverssyni, aðstoðarþjálfara Gróttu.
Shuhei Narayama ásamt Davíð Erni Hlöðverssyni, aðstoðarþjálfara Gróttu. grótta

Grótta heldur áfram að safna liði fyrir næsta tímabil í Olís-deild karla og hefur samið við japanska markvörðinn Shuhei Narayama.

Fjórða tímabilið í röð verður Grótta því með japanskan leikmann í sínum röðum. Saturo Goto lék með Seltirningum tímabilið 2020-21 og Akimasa Abe var svo tvö ár á Nesinu. Líkt Goto og Abe kemur Narayama frá Wakunaga Leolic.

„Við bindum vonir við að Narayama muni styrkja leikmannahópinn okkar í vetur og smellipassi inn í æfingakúltúrinn okkar. Forvarar hans frá Japan höfðu góð áhrif á Gróttuliðið og við vonum að sama verði uppi á teningnum með Narayama,“ segir Róbert Gunnarsson í tilkynningu Gróttu.

Narayama, sem fagnar 27 ára afmæli sínu í dag, mun verja mark Gróttu á næsta tímabili ásamt Einari Baldvin Baldvinssyni.

Narayama er fimmti leikmaðurinn sem Grótta fær eftir að síðasta tímabili lauk. Áður voru Jón Ómar Gíslason, Ólafur Brim Stefánsson, Andri Fannar Elísson og Ágúst Ingi Óskarsson komnir til liðsins.

Grótta endaði í 9. sæti Olís-deildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×