Þetta segir í umsögn Neytendasamtakanna um áformin í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir að við lagasetningu um innlenda greiðslumiðlun telji Neytendasamtökin að leggja eigi sérstaka áherslu á að hún verði ódýr og örugg, að skjót úrræði varðandi ágreiningsmál verði tryggð og að öllum verði tryggður aðgangur að greiðslumiðlun óháð fjárhagsstöðu.
Þrefalt meiri kostnaður en í Danmörku
Í umsögninni segir að tryggja þurfi að innlend smágreiðslulausn verði ódýr. Samfélagslegur kostnaður smágreiðslumiðlunar hafi verið tvöfalt hærri hér á landi en í Noregi, sé miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu, og þrefalt dýrari en í Danmörku árið 2018.
„Þessi aukni kostnaður skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda og jafngildir því að hver einasti Íslendingur greiði árlega um 100.000 kr. meira vegna greiðslumiðlunar en skandinavískir frændur vorir.“
Því sé nauðynlegt að lækka þennan kostnað og í því skyni megi meðal annars líta til innlendra greiðslulausna í Danmörku (Dankort) og Noregi (BankAxept).
Þá þurfi smágreiðslulausnin að vera valkvæð á sölustað, þó stuðla megi að notkun hennar með hnippingu (e.nudging), að því gefnu að hún sé raunverulega ódýrari, og að samanburður við kostnað annarra greiðslukosta sé skýr og gagnsær.
Tryggja þurfi öryggi og jafnan aðgang
Neytendasamtökin segja að tryggja þurfi öryggi innlendrar smágreiðslumiðlunar, að hún sé áreiðanleg og að úrlausnarleiðir séu greiðfærar neytendum. Að undanförnu hafi háar upphæðir verið færðar út af kortum og bankareikningum fólks án heimildar þeirra, og standist skuldfærslubeiðnir oft og tíðum ekki kröfur um sterka sannvottun.
Þrátt fyrir það þurfi fólk á tíðum að bíða í á annan mánuð til að endurheimta fé sitt, og marga mánuði, þurfi það að leita til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
„Koma verður á fót úrlausnarleið, hvert neytendur geta leitað til að fá skjóta úrlausn allra sinna mála er varða ágreining í greiðslumiðlun. Líta má til skjótrar og góðra úrlausna Samgöngustofu í málefnum flugfélaga og þannig veita fjármálaeftirliti Seðlabankans úrskurðarvald í ágreiningsefnum í greiðslumiðlun.“
Þá segir að tryggja þurfi jafnan aðgang að greiðslumiðlun óháð stétt og stöðu. Í því samhengi beri að líta til að ógerningur er að fá greiðslukort hafi fólk lent á vanskilaskrá og í allt að fjögur ár eftir að fólk er skráð af henni. Þó sjálfsagt megi takmarka ádráttarmöguleika fólks með sögu um vanskil, telji Neytendasamtökin nauðsynlegt að tryggja að öll, óháð vanskilaskráningu, hafi jafnan aðgang að greiðslumiðlun.