„Þetta er sama mynstur og hefur verið árum saman,“ sagði Andrés í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, spurður út í meinta þjófnaðarhrinu. Samtökin gera ráð fyrir að sex til átta milljarðar króna tapist árlega vegna þjófnaðar í verslunum.
„Meirihluti þessara þjófnaðarbrota er af völdum skipulagðra gengja sem senda hingað fólk í þeim eina tilgangi að fremja hér brot af þessu tagi. Við og lögreglan þekkjum þetta mynstur upp á hár. Vandinn er að lögreglan er ekki nægilega tæknivædd til að bregðast við þessum vanda með viðeigandi hætti.“
Hann segir samtökin hafa verið í samráði við lögregluna í um þrjú ár til að þróa fyrrnefndan þjófavarnarbúnað.
„Hann gengur út á það að hægt verði að senda myndir og upplýsingar úr öryggiskerfum verslana inn á gagnagrunn lögreglunnar. Þau geti þá fylgst með því sem er að gerast og brugðist mun hraðar við. Sent þann bíl sem er næstur á staðinn og svo framvegis,“ segir Andrés.
Vandinn hingað til hafi verið að lögregla hafi ekki brugðist nægilega hratt við en búnaðurinn á að bæta úr því. Andrés segir verslanir verja miklum fjármunum til þess að verja sig frá þjófnaði.
„Gallinn er bara sá að þeir sem stunda þessa iðju eru atvinnumenn í því fagi. Það koma alltaf nýjar aðferðir og leiðir, það er gömul saga og ný,“ segir Andrés og heldur áfram:
„Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að við sjáum fyrir endann á þróun á þessum búnaði sem við erum sátt við, bransinn, lögreglan og eftir því sem ég best veit hefur Persónuvernd samþykkt að notaður verði í þessum tilgangi.“