Þetta segir í tilkynningu sem Samtökin ’78 sendu frá sér vegna umfjöllunar fjölmiðla um málið undanfarið.
Samtökin fengu fyrst ábendingar um ásakanir um kynferðisofbeldi í garð barna af hálfu fyrrverandi formanns félagaráðs í nóvember á síðasta ári. Aðgerðaráætlun samtakanna vegna ofbeldis var í kjölfarið virkjuð og var málið tilkynnt til viðeigandi yfirvalda.
Í tilkynningu sem samtökin birtu í fyrra kom fram að viðkomandi hefði aldrei unnið sjálfboðaliðastörf með börnum eða ungmennum innan Samtakanna ’78. Þá var sérstaklega tekið fram að sjálfboðaliðar séu aldrei einir á vettvangi sem er „liður í því að tryggja öryggi bæði gesta og sjálfboðaliðanna sjálfra“.
Einnig sagði að innan Samtakanna ’78 sé boðið upp á faglega ráðgjöf til hinsegin fólks eða vegna mála sem snertir þau. Slík ráðgjöf stæði þolendum málsins til boða að kostnaðarlausu, líkt og öðrum.
Samtökin ítreka að viðkomandi sjálfboðaliði hafi ekki starfað á vettvangi Samtakanna ’78 síðan málið kom upp í fyrra.
Fréttin hefur verið uppfærð.