Vísir greindi frá því í fyrradag að Hamborgarafabrikkan í Kringlunni hefði ákveðið að loka eftir að upp kom magapest meðal gesta staðarins. Verkefnastjóri hjá Landlækni sagði í gær að tilkynningar hefðu borist til embættisins vegna veikinda sem svipaði til nóróveirusýkingar. Niðurstöður úr fólki sem tilkynnti sig veikt eru væntanlegar seinni partinn í dag.
Hafa átt í góðu samstarfi við heilbrigðiseftirlit
María Rut Hafliðadóttir, framkvæmdastjóri Fabrikkunnar, segir í samtali við Vísi að staðurinn bíði enn svara frá heilbrigðiseftirlitinu og niðurstöðu úr sýnatöku en sósur staðarins voru sendar til Sýni til greiningar.
Hún segir að um sólarhringsvinnu hafi verið að ræða við sótthreinsun á staðnum og við að henda matvælum. Starfsfólk staðarins hafi átt í góðu samstarfi við heilbrigðiseftirlitið og muni halda því áfram.
Vita enn ekki upprunann
Í svörum frá Jóni Ragnari Gunnarssyni, heilbrigðisfulltrúa Reykjavíkurborgar, til Vísis kemur fram að enn sé ekki vitað hvort nóróveiran hafi ollið veikindum gesta eða ekki.
„Nóróveira getur borist í matvæli frá einstaklingum sem eru veikir eða hafa nýlega verið veikir af völdum hennar. Ekki liggur fyrir hver uppruni hópsýkingarinnar er á þessari stundu.“
Hann segir fjórar tilkynningar einnig hafa borist heilbrigðiseftirlitinu um veikindi eftir neyslu matvæla í Fabrikkunni í Katrínartúni. Ekki sé hægt að fullyrða neitt um tengsl þessara veikinda.