„Það er í raun og veru algjörlega fyrir neðan allar hellur að þetta skildi þó ná þetta langt yfir höfuð. Þannig að ég er náttúrulega mjög hissa og hugsi yfir því að ríkisvaldið ætli að áfrýja þessu máli. Það er búið að kveða upp dóm þar sem var réttilega komist að þessari niðurstöðu,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við Vísi.
Steina Árnadóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, var sýknuð af ákæru um manndráp á geðdeild Landspítalans en greint var frá því í dag að ríkissaksóknari hafi ákveðið að áfrýja málinu til Landsréttar.
Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Steinu, í samtali við Vísi en ekki hefur náðst í Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara í dag.
Kallar eftir lagabreytingum
Guðbjörg segir að FÍH hafi ítrekað kallað eftir því að hegningarlögum og lögum um heilbrigðisstarfsfólk verði breytt til þess að koma í veg fyrir mál eins og það sem ákæruvaldið höfðaði á hendur Steinu. Alvarleg mistök og afleiðingar þeirra séu í langflestum tilvikum afleiðing raðar kerfismistaka.
Nú þegar sé búið að breyta lögum í nágrannalöndum okkar og að vinna sé reyndar hafin við endurskoðun laga hér á landi.
„En ég veit ekki á hvaða hausaveiðum yfirvöld eru hérna. Og halda það að þetta hjálpi til við að halda heilbrigðisstarfsfólki í starfi, ég bara skil það ekki. Það er búið að dæma í þessu máli, það kom mjög skýrt fram hver niðurstaðan er og þar við situr.“