Þetta fullyrðir Morgunblaðið í frétt sinni í kjölfar skiptafunds en eftir birtingu hennar gerði Helgi alvarlegar athugasemdir við þessa fullyrðingu og sagði ekkert hafa komið fram á skiptafundinum í gær um að til greina kæmi að rifta umræduum kaupum frá árinu 2021.
Riftunarfrestir eru í flestum tilvikum að hámarki tvö ár en rétt rúm tvö ár liðu frá því Hofgarðar ehf. keyptu dv.is og önnur vörumerki af Torgi áður en Torg hætti starfsemi og óskaði eftir gjaldþrotaskiptum.
Helgi Magnússon, eigandi Torgs, átti stærstu almennu kröfuna í þrotabúið, sem nam tæplega milljarði króna. Heildarkröfur í þrotabúið námu um 1,5 milljarði.
Í frétt Morgunblaðsins segir að eignir félagsins dugi ekki fyrir samþykktum kröfum skiptastjóra í félagið. Samþykktar kröfur nemi um 235 milljónum króna en eignir Torgs nemi einungis um 100 milljónum. Stór hluti þessara krafna eru launakröfur fyrrverandi starfsmanna Fréttablaðsins og Hringbrautar sem mun þá einungis fá hluta launa sinna greiddan. Launakröfurnar eru forgangskröfur í búið.
Ekkert nema forgangskröfur
Meðal samþykktra krafna er krafa Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem fer fram á um 8,1 milljón króna en skiptastjóri samþykkti 4,2 milljónir. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir sem stýrði sérblöðum fer fram á 6,2 milljónir króna og Björn J. Þorláksson 5,2 milljónir. Skiptastjóri samþykkir kröfur þeirra beggja upp að 4,1 milljón.
Óskar Sigurðsson, skiptastjóri búsins, tók ekki afstöðu til almennra krafna í kröfuskrá. Það bendir til þess að ekki sé gert ráð fyrir því að nokkuð fáist upp í aðrar kröfur en forgangskröfur.
Fjallað var um kröfuskrá þrotabúsins um helgina.
Fréttin hefur verið uppfærð í kjölfar svara Helga Magnússonar, eiganda Hofgarða.