Þetta staðfestir Ágúst Bjarni Garðarson, 1. varaformaður nefndarinnar og þingmaður Framsóknarflokksins. Hann er starfandi formaður þar sem formaðurinn Guðrún Hafsteinsdóttir hefur tekið ráðherrasæti.
Stefnt er að því að fulltrúar fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabankans verði boðaðir á fundinn og að hann verði lokaður.
Seðlabankinn birti í dag samkomulag sitt við Íslandsbanka. Þar kemur fram að víða var pottur brotinn innan bankans þegar hlutur ríkisins í honum var boðinn út.
Í samantekt segir að niðurstaða fjármálaeftirlitsins hafi verið að stjórn og bankastjóri Íslandsbanka hafi ekki með fullnægjandi hætti innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit sem tryggir skilvirka og varfærna stjórnun, sem birtist meðal annars í því að ekki var tryggt að bankinn uppfyllti lagakröfur sem gilda um veitingu fjárfestingarþjónustu og fylgni við innri reglur sem stjórn hans hefur sett.