Fórnarlamb árásarinnar, litáískur maður á þrítugsaldri, lést á sjúkrahúsi í gær. Tilkynning barst lögreglu um klukkan fjögur aðfaranótt laugardags og þegar hún mætti á vettvang var maðurinn meðvitundarlaus. Sá grunaði var farinn af vettvangi þegar lögregla mætti á svæðið en var handtekinn í nágrenninu.
Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald seinnipartinn síðdegis í gær til 29. júní.
Ekki reyndist unnt að ræða við manninn vegna málsins í gær vegna ástands en yfirheyrslur standa til í dag.
Ólíkt öðrum málum
Eiríkur Valberg, lögreglumaður hjá miðlægri rannsóknardeild segir ekki hægt að veita miklar upplýsingar um málið að svo stöddu þar sem enn eigi eftir að ræða við vitni. Hann segir málið ólíkt öðrum manndrápsmálum sem lögregla hefur til rannsóknar um þessar mundir.
Ekki lítur út fyrir að vopni hafi verið beitt en fyrir liggur að um áflog milli mannanna var að ræða. Eiríkur gat ekki svarað því hvort tengsl væru á milli mannanna.
Fjórða manndrápsmálið á tveimur mánuðum
Manndrápsmálið nú um helgina er það fjórða á rétt rúmum tveimur mánuðum.
Þann 20. apríl var pólskur maður stunginn til bana á bílastæði við Fjarðarkaup í Hafnarfirði.
Mánuði síðar, þann 19. maí fannst kona á þrítugsaldri látin í heimahúsi á Selfossi.
Þann 17. júní var pólskur maður stunginn til bana í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði.