Íslandsbanka hefur verið gert að greiða tæpa 1,2 milljarða króna vegna brota á reglum við framkvæmd útboðs Bankasýslu ríkisins á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Um er að ræða langhæstu sekt sem fjármálafyrirtæki hefur þurft að greiða vegna lögbrota sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið til rannsóknar.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar, segir að í ljósi nýjustu frétta sé krafan um rannsóknarskýrslu Alþingis jafn skýr núna og hún var þegar minnihluti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar lagði hana til í vetur.
„Það er auðvitað ljóst að meirihluti stjórnarflokkanna vildi ekki stofna slíka rannsóknarnefnd þegar við lukum málinu í nefndinni með tveimur álitum. Þá vissum við auðvitað að það væri von á niðurstöðu í rannsókn Fjármálaeftirlitsins sem er sjálfstæð rannsókn og ekki á okkar vegum,“ segir Þórunn.
„En við vissum bara ekki hvenær hún kæmi og nú er hún komin þó það sé reyndar ekki búið að birta hana. Við þurfum auðvitað að fá hana í hendur og skoða hana.“
Er ekki sérstakt að þú sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sért ekki upplýst um alla þætti málsins og bíði bara eftir upplýsingum?
„Í rauninni ekki. Af því leiti að Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var með skýrsluna á sínu borði og lauk umfjöllun um hana. Nefndin náði ekki sameiginlegri niðurstöðu um þá skýrslu og við í minnihlutanum töldum að málið væri ekki fullrannsakað.
Fjármálaeftirlitið hefur sjálfstæðar rannsóknarheimildir og er ekki undir eftirliti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar.
„En það hins vegar hlýtur að gerast að það verði fjallað um það mál í Efnahags- og viðskipanefnd og svo munum við í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd að sjálfsögðu skoða aftur kröfuna um rannsóknarskýrslu.“
Bjarni ætlar ekki að tjá sig
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir ljóst að brotalamir hafi verið á framkvæmdinni á sölu í hlut bankans en upphæð sektarinnar hafi komið sér á óvart. Hún viðurkennir alvarleg brot bankans og biðst afsökunar á mistökum við sölu hans en hyggst ekki láta af störfum sem bankastjóri.
Þórunn segir svör bankastjóra í mjög loðin, svo ekki sé dýpra í árina tekið.
„Ég vil fá skýr svör frá bankanum og svo að sjálfsögðu frá fjármálaráðherra. Það hefur legið fyrir frá upphafi að það er fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á þessari framkvæmd, framkvæmd sölunnar og hvernig það fór allt saman. En svo er auðvitað ábyrgðarkeðja sem nær til bankasýslunnar, Íslandsbanka og annarra sem sáu um þessa sölu.“
Aðspurð um hvort hún telji að málið hafi áhrif á stöðu fjármálaráðherra segir Þórunn ekki gott að segja til um það.
„Það fer eftir því hvað félagar hans i Sjálfstæðisflokknum segja og auðvitað hvað aðrir stjórnarflokkar hafa til málsins að leggja.“
Ekki hefur náðst í Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra síðasta sólarhringinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu. Aðstoðarmaður hans sagði hann ekki munu tjá sig um helgina en vísaði á tilkynningu frá ráðuneytinu þar sem segir að ekki sé tímabært að taka efnislega afstöðu til málsins. Þetta segir Þórunn óeðlilegt.
Menn geta ekki lagt á flótta þegar þeir þurfa að svara.