Í fréttum Stöðvar 2 fagnar talsmaður Verndarsjóðs villtra laxastofna niðurstöðunni og vonar að virkjunin sé núna úr sögunni. Landsvirkjun segir að virkjuninni gæti mögulega seinkað og það væru slæmar fréttir fyrir íslenskt samfélag.
Hvammsvirkjun í neðri Þjórsá virtist vera komin með grænt ljós í gærkvöldi eftir að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti framkvæmdaleyfi með fjórum atkvæðum gegn einu og taldi oddvitinn í framhaldinu að áralöngum deilum um virkjunina væri núna lokið.

En það er öðru nær. Í dag felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfi Orkustofnunar vegna Hvammsvirkjunar úr gildi á grundvelli vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Fjöldi einstaklinga og náttúruverndarsamtaka höfðu kært virkjunarleyfið, þeirra á meðal Veiðifélag Þjórsár, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Verndarsjóður íslenskra laxa.
„Við bara að sjálfsögðu fögnum þessum úrskurði,“ segir Elfar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna.
„Við erum búin að vera í mörg ár að berjast gegn virkjunaráformum við Hvammsvirkjun. Þessi virkjun myndi hafa mjög alvarleg áhrif á stærsta laxastofn landsins. Þannig að við að sjálfsögðu fögnum þessum úrskurði.“
-Hvaða afleiðingar hefur þessi úrskurður að ykkar mati?
„Ja, nú er erfitt að segja. Þetta allavegana væntanlega ógildir ákvörðun sem var tekin í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í gær með að veita framkvæmdaleyfi. Nú verðum við bara að fá að kynna okkur úrskurðinn aðeins betur. Við vorum að frétta þetta.“
-Heldurðu að þessi virkjunaráform séu hugsanlega fyrir bí?
„Ég vona það. Ég vona það,“ svarar Elfar.

Landsvirkjun lýsti nú undir kvöld vonbrigðum með að virkjunarleyfið skyldi fellt úr gildi. Fyrirtækið myndi leggja mat á það næstu daga hvað úrskurðurinn fæli í sér.
„Mögulega seinkar þessi ákvörðun framkvæmdinni eitthvað. Það væru slæmar fréttir fyrir íslenskt samfélag sem stefnir að orkuskiptum en skortur á endurnýjanlegri orku er fyrirsjáanlegur á næstu árum," segir Landsvirkjun í fréttatilkynningu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir úrskurðinn koma eins og þrumu úr heiðskíru lofti og hann væri mikil vonbrigði. Strax yrði farið í það að greina stöðuna.
Í beinni útsendingu Stöðvar 2 frá stílfustæðinu í gærkvöldi taldi oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps að deilum um virkjunina væri lokið: