Innlent

Orð­laus yfir svörum vegna að­búnaðar hrossa á Vest­fjörðum

Oddur Ævar Gunnarsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Eitt hrossanna var að sögn bóndans með hófsperru og því þarf að aflífa það. Hin segir hann að séu í góðu haldi en Steinunn fellst ekki á þau svör.
Eitt hrossanna var að sögn bóndans með hófsperru og því þarf að aflífa það. Hin segir hann að séu í góðu haldi en Steinunn fellst ekki á þau svör. Steinunn Árnadóttir

Dýra­vel­ferðar­sinni segir ó­líðandi að Mat­væla­stofnun hafi ekki gripið til að­gerða vegna endur­tekinna til­kynninga um slæman að­búnað hrossa á bæ í Arnar­firði. Þegar hún skoðaði að­stæður um helgina var hross fast í girðingu og lög­regla kölluð að bænum. Eig­andinn segir að stofnunin hafi gert sér að af­lífa eitt hrossanna, hin séu í góðu haldi.

Steinunn Árna­dóttir, sem hefur verið á­berandi í um­ræðu um dýra­vel­ferð fékk í desember á­bendingar um að­búnað hrossa á bæ í Arnar­firði. Hún segist strax hafa haft sam­band við eig­andann á bænum sem full­yrti að ekkert amaði að þeim.

Gerði sér sjálf ferð á bæinn

Steinunni bárust á­fram til­kynningar um að­búnað á bænum og var Mat­væla­stofnun gert við­vart fyrir jól. Auk þess var haft sam­band við bú­fjár­eftir­lits­mann sem sagði ekkert að skepnum á svæðnu. Steinunn gerði sér sjálf ferð á bæinn um helgina og tók myndir og mynd­bönd af að­stæðum.

Lög­reglan losaði hestinn. Steinunn segir ó­líðandi að Mat­væla­stofnun hafi ekki strax gripið til að­gerða þrátt fyrir í­trekaðar á­bendingar.

Eftir að við­talið var tekið barst Steinunni svar frá for­stjóra MAST sem segist taka á­bendingunni al­var­lega og að stofnunin muni fylgja henni eftir hratt og örugg­lega. Málið sé í vinnslu.

Eins og sést á myndinni hér að neðan er hófurinn á einum hestanna ó­eðli­lega langur sem veldur því að hann á erfitt með að ganga, ein­hver hrossanna virðast í af­lögn en erfitt er að dæma holda­stig þeirra af ná­kvæmni út frá ljós­myndum.

Um er að ræða hófsperru.Steinunn Árnadóttir

Þurfi að af­lífa einn

Steinunn deildi myndum af hestunum á Face­book og hefur færslan farið í mikla dreifingu. Í sam­tali við frétta­stofu segist bóndinn ekki hafa séð færsluna en hann hafi verið látinn vita af dreifingu hennar. 

Hann segir hestana við heilsu fyrir utan einn sem sé með hóf­sperru en hafi þrátt fyrir hana ekki kveinkað sér. MAST hafi haft sam­band við hann og beint því til hans að af­lífa hestinn sem gert verði um helgina.

„Ég er eigin­lega bara orð­laus ef þau ætla að gera þetta svona. Að þessi eini hestur ætti að vera af­lífaður og að annars sé allt í góðu lagi. Þá er nú, eins og mig hefur nú lengi grunað, eitt­hvað mikið að vinnu­að­ferðum Mat­væla­stofnunar.“

Hún segir furðu­legt ef raunin verði sú að stofnunin muni ekki að­hafast frekar í málinu. Sér hafi fundist að­stæður hestanna verri en hún hafi búist við.

„Þessi svör hans eru þannig að hann á alls ekki að hafa um­sjón yfir skepnum og ef hann er ekki sviptur um­ráðum yfir þessum skepnum þá er eitt­hvað mikið að.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×