Nafn Berge hefur komið upp í nokkur skipti á undanförnum vikum í tengslum við umræðuna um næsta þjálfara íslenska landsliðsins. Berge er í dag þjálfari norska verðandi ofurliðsins Kolstad þar sem landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson leika, en hann þjálfaði einnig norska landsliðið um árabil.
Undir stjórn Berge unnu Norðmenn til silfurverðlauna á HM í tvígang (2017 og 2019) og einu sinni hafnaði liðið í þriðja sæti á EM (2020).
Berge virðist þó ekki vera að taka við íslenska landsliðinu ef marka má heimildir Arnars sem greinir frá málinu á Twitter-síðu sinni.
Samkvæmt heimildum Sérfræðingsins sagði sá norski nei við HSÍ í upphafi vikunnar. Eftir það hefur samtalið milli HSÍ og Snorra Steins verið virkt. Samtalið heldur áfram um helgina. HSÍ vonast til að klára málið í upphafi næstu viku. Einar. #Handkastið pic.twitter.com/BI6zbDxouu
— Arnar Daði (@arnardadi) April 28, 2023
Arnar segir að Berge hafi hafnað starfinu í upphafi vikunnar og að HSÍ hafi nú virkjað samtalið við Snorra Stein Guðjónsson, þjálfara Vals. Nafn Snorra hefur einnig borið á góma í umræðunni um næsta landsliðsþjálfara.
Þá segir Arnar einnig að HSÍ vilji klára málið fljótlega eftir helgi, en íslenska karlalandsliðið mætir Eistlandi í lokaumferð undankeppni EM á sunnudaginn. Með sigri tryggir íslenska liðið sér efsta sæti riðilsins og þar með yrði Ísland í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir EM sem haldið verður í Þýskalandi í janúar á næsta ári.