Handbolti

Átta íslensk mörk í öruggum sigri Gummersbach | Fimmta tap Ýmis og félaga í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson skoraði sjö mörk fyrir Gummersbach í dag.
Elliði Snær Viðarsson skoraði sjö mörk fyrir Gummersbach í dag. Vísir/Getty

Fjórum leikjum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta er nú nýlokið og voru Íslendingar í eldlínunni í þeim öllum. Íslendingalið Gummersbach vann öruggan sjö marka sigur gegn Wetzlar, 37-30, þar sem átta íslensk mörk litu dagsins ljós, en Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen máttu þola sitt fimmta tap í röð er liðið heimsótti Füchse Berlin.

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, hafði góð tök á leiknum gegn Wetzlar og liðið náði fljótt fimm marka forystu. Gestirnir náðu að minnka muninn niður í þrjú mörk þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik, en Íslendingaliðið skoraði seinustu sex mörk hálfleiksins og staðan var því 20-11 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Heimamenn í Gummersbach hleyptu gestunum aldrei nálægt sér í síðari hálfleik og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur, 37-30. Elliði Snær Viðarsson skoraði sjö mörk fyrir Gummersbach í dag og Hákon Daði Styrmisson eitt. Liðið situr nú í níunda sæti deildarinnar með 26 stig eftir 27 leiki.

Þá máttu Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen þola hvorki meira né minna en 14 marka tap gegn Füchse Berlin á sama tíma, 38-24. Ýmir og félagar hafa nú tapað fimm leikjum í röð og eru líklega endanlega búnir að stimpla sig út úr toppbaráttunni.

Liðið situr í fimmta sæti deildarinnar með 37 stig, sex stigum minna en Füchse Berlin og Kiel sem tróna á toppnum.

Að lokum skoraði Sveinn Jóhannsson eitt mark fyrir Minden er liðið tapaði naumlega gegn Erlangen, 29-28, og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach er liðið vann eins marks sigur gegn Hannover-Burgdorf, 31-30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×