Alpla Hard vann nauman eins marks sigur gegn West Wien í undanúrslitum á föstudaginn, 24-23, en sigur liðsins í gær var mun öruggari.
Liðið skoraði fyrsta mark leiksins og leiddi nánast hverja einustu sekúndu eftir það. Alpla Hard náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, en munurinn var þó aðeins eitt mark þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 16-15.
Lærisveinar Hannesar tóku svo völdin á ný í síðari hálfleik og sigldu að lokum heim nokkuð öruggum sex marka sigri, 33-27, og bikarmeistaratitillinn í höfn. Þetta var fyrsti stóri titill Alpla Hard undir stjórn Hannesar, en hann tók við þjálfun liðsins sumarið 2021.