Hrafnhildur hefur mikinn áhuga á velferð dýra og að íslenskir bændur standi sig vel og fái að blómstra með sína atvinnugrein á sínum búum. Hún er hins vegar alveg búin að fá nóg af því hvernig innfluttar kjötvörur eru merktar, eða ekki merkta, í íslenskum matvöruverslunum. Hún tók sig því til í vikunni og hringdi í stærstu fyrirtækin, sem sjá um innflutninginn til að leita svara hjá forsvarsmönnum þeirra. Hún gerði síðan grein fyrir niðurstöðunni á Facebook síðunni sinni og hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð þar.
„Ég læt bara dýravelferð mig varða og eins þetta með innflutta kjötið þar sem það er búið að vera að ljúga og svíkja fólk og plata. Mér finnst þetta vera ósanngjarnt og vanvirðing við okkar landbúnað að aðilar geti merkt unnið kjöt, sem íslenskt og víla ekki fyrir sér að nota íslenska fánann á það, það er bara til að blekkja,” segir Hrafnhildur.
Og Hrafnhildur nefnir dæmi.
„Um leið og þú ert búin að setja pipar eða salt á það þá er það flokkað, sem unnin vara eða í svona legi, þá ber þeim ekki skylda að tiltaka einu sinni landið, sem það kemur frá. Við getum ekki treyst þessum fyrirtækjum fyrr en lögum verður breytt. Ráðamenn þurfa að girða sig í brók en þetta liggur klárlega hjá Svandísi Svavarsdóttir,” segir Hrafnhildur enn fremur.

En hvernig voru viðbrögð ráðamanna fyrirtækjanna þegar Hrafnhildur krafði þá skýringa, voru þeir skömmustulegir eða?
„Jú, jú, og bentu kannski á að aðrir væri verri að merkja en þeir sjálfir. Mér finnst líka mjög alvarlegt að tvær stórar blokkir, sem bændur, allavega að nafninu til eiga að eiga, þeir standa í þessum innflutningi og segja bara, ef við gerum það ekki, þá gerir það bara einhver annar,” segir Hrafnhildur.
Hvaða blokkir eru þetta?
„Við skulum bara segja, ein er Sunnanlands og ein er fyrir norðan.”
