Tilkynnt var seint í gær að íslenska hefði verið valin fyrst tungumála, utan ensku, í þróunarfasa nýjustu útgáfu tæknifyrirtækisins OpenAI á umræddu mállíkani, sem samtalsgreindin ChatGPT byggir á. Samstarfið er afrakstur heimsóknar íslenskrar sendinefndar í helstu tæknifyrirtæki Silicon Valley í fyrra. Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir þetta hafa mikla þýðingu fyrir íslenska tungu.
„Skilaboðin eru þau að við munum tala íslensku í framtíðinni. Við erum búin að gera þessa innviði. Ég get bara sagt að ég er í sjöunda himni, ég er í skýjunum yfir að þetta sé að takast,“ segir Lilja.
Íslenskir notendur nýjustu útgáfu ChatGPT eru strax byrjaðir að leika sér með hana; gervigreindin hefur meðal annars samið ljóð um samgönguverkefnið Betri Reykjavík, skipulagt þriggja daga frí til Ítalíu og gert ítarlega greiningu á kostum og göllum inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
En hvað varð til þess að Sam Altman, stofnandi og framkvæmdastjóri OpenAI, valdi íslensku? Lilja segir að áhugi hans hafi verið greinilegur á fundi með sefndinefndinni.
„Þá í rauninni kemur fram í máli hans að við erum eitt fyrsta þjóðríkið sem óskar eftir fundi og óskar eftir þessu samstarfi. Og það verður auðvitað að geta þess að máltæknifólkið okkar, við höfum verið með um 60 manns í vinnu við að þróa þetta síðustu fjögur ár, og hann sér í raun og veru að við erum búin að vinna þessa heimavinnu okkar. Og þess vegna var svona auðvelt að starfa með okkur,“ segir Lilja.
Þá bendir Lilja á að nú styttist í að íslensku máltæknilausnirnar komi inn í Microsoft.
„Og þá má nú geta þess að eftirlætisrithöfundur aðstoðarforstjóra Microsoft er Arnaldur Indriðason,“ segir Lilja létt í bragði.