Skoðun

Ólafur Stephen­sen og birgða­staðan á dilka­kjöti hjá KS

Hilmar Þór Hilmarsson skrifar

Ólafur Stephensen framkvæmdastóri Félags atvinnurekenda skráir eftirfarandi á facebook síðu sína 17. janúar 2023. „Á bls. 13 í Morgunblaðinu í dag er sagt frá nýjasta stríðsglæp Rússa í Úkraínu, eldflaugaárás á íbúðablokk, þar sem minnst 40 manns létu lífið. Af 75 særðum eru 14 börn. Á forsíðu blaðsins er rætt við sérlegan fulltrúa hryðjuverkaríkisins, Ágúst Andrésson heiðurskonsúl Rússlands og forstöðumann kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, um birgðastöðuna í dilkakjöti. Honum hefur víst enn ekki dottið í hug að afsala sér heiðursnafnbótinni.“

Færsla Ólafs.

Það má vel vera að Ólafi finnist að með þessu sé hann að sýna Úkraínumönnum samúð en mér finnst þetta alveg sérlega ósmekkleg og óviðeigandi færsla. Starf ræðismanns (konsúls) hefur ekkert með stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu að gera. Ólafi er hér eins og í fyrri færslum tíðrætt um heiðursnafnbót, en hann veit væntanlega að ræðismenn eru jafnan heiðursræðismenn eða heiðurskonsúll ef þeir þiggja ekki laun fyrir þjónustu sína. Annars eru þeir kallaðir ræðismaður eða konsúll.

Hvers vegna beinir Ólafur ekki spjótum sínum að utanríkisráðuneytinu og ríkisstjórninni og hvetur til þess Ísland slíti stjórnmálasambandi við Rússland? Er viðkvæmt mál fyrir Ólaf Stephensen að gagnrýna Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra sjálfstæðisflokksins, sem fer með utanríkismál fyrir að vera með stjórnmálasamband við land sem hann kallar hryðjuverkaríki? Við slit stjórnmálasambands yrði starf konsúls/heiðurskonsúls væntanlega sjálfkrafa lagt miður.

Er viðeigandi að manni sem gegnir stöðu Framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda að blanda Kaupfélagi Skagfirðinga og starfsmanni þess í ódæðisverk í Úkraínu þar sem fjöldi manns lætur lífið? Telur Ólafur Stephensen kannski að eldflauginni sem lenti á fjölbýlishúsi í Dnipro Úkraínu hafi verið skotið frá Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga? Hvað kemur þetta svo birgðastöðunni á dilkakjöti hjá KS við? Sjálfur þekki ég Ólaf Stephensen að góðu einu og ég skil samúð hans með Úkraínu en málflutningur hans í þessu máli er óviðeigandi.

Höfundur er prófessor hjá Háskólanum á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×