Innlent

Elísabet Jökulsdóttir fékk nýra

Árni Sæberg skrifar
Elísabet Jökulsdóttir er komin með nýtt nýra.
Elísabet Jökulsdóttir er komin með nýtt nýra. Vísir/Vilhelm

Skáldkonan Elísabet Jökulsdóttir er komin með nýtt nýra. Í byrjun síðasta árs var hún komin á lokastig nýrnabilunar.

Unnur Þóra Jökulsdóttir, systir Elísabetar, greinir frá gleðitíðindunum á Facebook en þær systur eru saman úti í Svíþjóð þar sem nýtt nýra var grætt í Elísabetu á aðfaranótt laugardags.

„Læknirinn hringdi í hana á fimmtdaginn og spurði hvort mætti bjóða henni til Svíþjóðar,“ segir Unnur Þóra.

Hún segir allt ganga eftir óskum, nýrað sé strax farið að starfa og Elísabet biðji kærlega að heilsa öllum.

Elísabet greindi frá því í viðtali hjá Stundinni í maí síðastliðnum að nýru hennar störfuðu aðeins á fimmtán prósent afköstum og hún því komin á lokastig nýrnabilunar. 

Elísabet var sett á biðlista eftir lífsnauðsynlegri nýrnaígræðslu. Talið var að hún myndi þurfa að bíða í eitt og hálft ár. Nú innan við ári síðar er Elísabet komin með nýtt nýra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×