Það stendur til að byggja 16000 íbúðir í Reykjavík á næstu 10 árum og þar af 2000 á ári á næstu fimm árum en íbúðauppbygging hefur ekki haldið í við þörf á nýju húsnæði. Þannig hefur myndast uppsafnaður halli sem samkomulaginu er ætlað að vinna upp. Reykjavík er fyrsta sveitarfélagið sem gerir slíkan samning. Dagur B Eggertsson, borgarstjóri hvetur önnur sveitarfélög til þess að fara sömu leið.
„Ég hef talað fyrir húsnæðissáttmála sem auki fyrirsjáanleika og jafnvægi og stöðugleika og veitir ekki af á þessum húsnæðismarkaði, hann þarf að vera heilbrigðari. Til þess að það gerist þá þarf bæði samninginn sem við skrifuðum undir í gær en líka samninga við önnur sveitarfélög þannig að þetta verði ekki húsnæðissáttmáli fyrir Reykjavík heldur húsnæðisátttmáli fyrir Ísland.“

Í markmiðakafla samningsins er talað um að uppbyggingarheimildir verði tímabundnar, en brögð hafa verið að því að þeir sem eigi byggingarréttinn hafi legið á lóðum án þess að hefja uppbyggingu.
„Í sumum tilvikum liggja byggingarheimildir á hendi einkaaðila árum og jafnvel áratugum saman án þess að það sé farið af stað og raunverulega byggt. Núna erum við að fá inn í lög að þessa heimildir verði í eðli sínu tímabundnar þannig að eftir einhvern tíma, tíu ár til dæmis, þá falli þær einfaldlega bara úr gildi og þannig skapist þrýstingur á alla að láta verkin tala.“