Í dagbók lögreglunnar fyrir aðfaranótt jóla segir að afskipti hafi verið höfð af foreldrum vegna utanvegaaksturs í skíðabrekkunni að Útvarpsstöðvarvegi 1. Foreldrunum var bent á bæði væri bannað að hafa börn í eftirdragi og að akstur væri óheimill í skíðabrekkunni.
Að því er segir í dagbókinni voru báðir foreldrar mjög ósáttir við að þurfa að hætta að aka með börnin í eftirdragi en ætluðu þó að fara að fyrirmælum.
Að öðru leyti voru gærkvöldið og nóttin róleg hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Rétt fyrir klukkan 18 var tilkynnt um umferðarslys í Kópavogi þar sem tvær bifreiðar höfðu skollið saman. Annar ökumaðurinn kvaðst ekki hafa náð að stöðva bifreiðina vegna hálku. Báðir ökumenn fóru og fengu aðhlynningu á bráðadeild.
Þá var einn ökumaður stöðvaður í Garðabæ upp úr klukkan 22. Sá er grunaður um ölvun við akstur.