Fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar að veiðiskip muni jafnframt taka þátt í verkefninu og aðstoða við að afmarka dreifingu loðnustofnsins sem flýti fyrir mælingunum rannsóknaskipanna.
Samkvæmt nýjustu ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar sem kynnt var í byrjun októbermánaðar verður leyfilegt að veiða allt 218 þúsund tonn af loðnu á komandi vertíð. Þar af falla um 139 þúsund tonn í skaut íslenskra útgerða.
„Þessar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar og útgerða eru að frumkvæði og kostaðar af útgerðum uppsjávarveiðiskipa.
Markmið leiðangra í desember er tvíþætt. Í fyrsta lagi að fá mynd af útbreiðslu veiðistofnsins sem nýtist bæði við skipulagningu á mælingum Hafrannsóknastofnunar á stærð stofnsins í janúar næstkomandi svo og skipulagningu flotans á veiðum næstu vikurnar. Í öðru lagi er vonast eftir því að marktæk mæling á stærð veiðistofnsins náist sem mögulega leiddi til endurskoðunar á veiðiráðgjöf fyrir komandi loðnuvertíð.
Líkt og komið hefur fram var niðurstaða mælinga á stærð veiðistofns loðnu, sem fram fór í september síðastliðinn töluvert lægri en væntingar voru um, byggðar á niðurstöðum mælinga á ungloðnu haustið 2021. Með öðrum orðum, mælingarnar í fyrra bentu til þess að veiðistofninn á vertíðinni 2022/23 yrði mun stærri en haustmælingin í ár bendir til og ráðgjöf um aflamark byggir á. Þetta misræmi í niðurstöðum milli ára er ástæða þess að reynt verður að ná mælingu á stærð stofnsins á þessum tímapunkti,“ segir í tilkynningunni.