Áhöfn varðskipsins Þórs og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hafa farið fyrir leitinni ásamt aðstoð björgunarbáta frá Landsbjörg. Leitarsvæðið var stækkað í dag og er um 25 sjómílur norðvestur af Garðskaga.
„Aðstæður hafa verið góðar og aðgerðir tækjanna, skipa og þyrlu, hafa gengið vel en leit hefur ekki skilað árangri,“ segir Guðmundur Birkir Agnarsson, aðgerðarstjóri hjá Landhelgisgæslunni, um málið en leit hefur verið hætt í dag.
Leit verður haldið áfram strax í birtingu á morgun og er ráðgert að varðskipið verði á svæðinu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort þyrlan verði notuð. Þá verður leitarsvæðið stækkað.
„Leitarsvæðin í raun og veru stækka alltaf sjálfkrafa eftir því sem frá líður vegna vaxandi óvissuþátta en við reynum að einbeita okkur auðvitað að svona kjarna svæðisins með þeim tækjum sem við munum hafa þá. Við verðum alla vega með varðskipið en við erum ekki búin að sjá hvort það verði fleiri tæki, fleiri skip eða loftför,“ segir Guðmundur.
Aðgerðirnar voru sem mestar á laugardag og í gær, tóku alls 15 skip og bátar auk þyrlu Landhelgisgæslunnar þátt í leitinni þegar mest var.
„Þetta er búið að vera mjög umfangsmikil aðgerð og auðvitað leggjum við mesta kraftinn í hana í upphafi. Leitin hófst í myrkri og við leituðum þar fram á nótt en svo var ákveðið að draga úr leitinni og hvíla mannskapinn,“ segir Guðmundur.
Lögregla tók skýrslu af skipstjóra Sighvats, sem er í eigu Vísis hf. í Grindavík, í morgun en telur ljóst að um sé að ræða hörmulegt slys. Þá sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur þar sem maðurinn er búsettur, í samtali við fréttastofu í dag að samfélagið í Grindavík sé harmi slegið og bíði þess að skipverjinn finnist.