Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en eftir að Dýrafjarðargöng voru opnuð fyrir tveimur árum hefur jarðgangagerð legið niðri. Þó heyrast kröfur um ný göng nánast úr öllum landshlutum. Ráðherra innviða boðar núna nýja nálgun.

„Þannig að í stað þess að hafa horft til þess, eigum við að segja, að jarðgöng á Íslandi hingað til hafi verið þannig að einhver mjög duglegur þingmaður í einhverjum landshluta hafi náð að hvetja til aðgerðarinnar, að þá erum við að taka öll jarðgöng undir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.
„Við erum að reyna að búa til þá hugmyndafræði að í næstu jarðgangaáætlun setjum við fram þannig að á næstu þrjátíu árum munum við reyna að byggja öll þau göng sem við þurfum en fjármagna þau kannski allt að fimmtíu ár eftir þann tíma,“ segir innviðaráðherra.

Samkvæmt gildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar verði næst. En stendur sú forgangsröðun?
„Mér finnst eðlilegt að við stöndum við gefin loforð. Nema það sé eitthvað annað sem Alþingi taki ákvörðun um. Þá verð ég auðvitað að framfylgja því.“
Þegar ráðherrann er spurður hvaða önnur göng hann teldi helst koma til skoðunar nefnir hann þessi:
„Í kringum Siglufjörð, Siglufjarðarskarðið, þar sem Almenningar eru að fara niður. Göng á Vestfjörðum. Svo er náttúrlega verið að fjalla um göng víðar í kerfinu. Til dæmis göng undir Reynisfjall og fleiri göng á Austfjörðum.“

Við fjármögnun vill hann horfa til Færeyinga sem fyrirmyndar að hluta en einnig segir hann þetta tengjast endurskoðun gjalda af umferð.
„Þar sem við erum að takast á við framtíðar samgöngugjöld á sama tíma og við munum sjá eldsneytisgjöldin, bensín- og olíugjaldið, fara út,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: