Sumarið 2021 vöknuðu áhyggjur af loftvist á leikskólanum Grandaborg og niðurstaða úttektar lá fyrir í sumar.
Mygla fannst í Grandaborg og við viðgerðir fannst rof á skólplögn undir húsinu. Krökkunum var skipt upp í þrennt: Hluti hóspsins var sendur í húsnæði á fyrstu hæð Kringlunnar 1, annar á leikskólann Eggertsgötu og þriðji á Nauthólsveg.
„Haustið er búið að vera mjög streituvaldandi fyrir mig sem einstætt foreldri með barn á leikskóla sem þarf að færa oftar en einu sinni á milli staða,“ segir Karen Björg Jóhannsdóttir.
Mannekla vegna mygluveikinda
Sonur hennar er eitt þeirra barna sem var sent í Kringluna. Foreldrum barnanna barst í morgun póstur frá skólastjórnendum þar sem fram kom að mygla væri í efri hæðum hússins og að hurðir á milli hæða, sem áttu að vera lokaðar, hafi ekki verið það. Þannig hafi loft borist milli hæða og börn og starfsmenn farnir að finna fyrir myglueinkennum.
Karen segir aukin mygluveikindi meðal annars hafa haft áhrif á mönnun á leikskólanum.
„Þegar starfsmenn komast ekki til vinnu eru náttúrulega ekki fullmannaðar deildir og þá þarf að draga úr þjónustu. Við höfum þurft að mæta því þar sem við getum hverju sinni,“ segir Karen.
Hún hafi þurft að vera heima með son sinn minnst einn dag í viku vegna manneklu.
„Þegar þú ert að greiða full leikskólagjöld fyrir barnið þitt sem fær síðan bara þjónustu á par við það sem er í boði hérna. Þetta er bara djók,“ segir Karen.
Segir engin skýr svör fást
Hún er sjálf með lítið bakland og getur ekki fengið fólk til að hlaupa undir bagga.
„Þegar maður er upp á náð og miskun yfirmanns síns kominn þá er það lykilatriði að maður sé með góðan yfirmann, sem ég vissulega er með. En til lengri tíma litið brennur maður bara út.“
Nú hefur foreldrum verið tilkynnt að deildin verði færð úr Kringlunni yfir á Hagaborg í byrjun desember. Karen segist vera orðin þreytt á endalausu hringli og loðnum svörum.
„Þegar við fáum svör fáum við þau svolítið loðin. Fyrst um sinn voru engir fastir tímarammar. Við fengum svör sem var ekki endilega hægt að treysta á. Við fengum tímaramma sem voru ekki raunhæfir,“ segir Karen.
„Ég er búin að sitja mjög skilningsrík og þolinmóð undir þessu og láta eins og þetta hafi ekki áhrif á mig. Ég er einstæð, ég er með tvö börn. Ég hef ekkert bakland. Gefið okkur bara endanlega tímapunkta og fastar dagsetningar og standið við þetta. Verið bara skýr í skilaboðum til foreldra. Og hysjið upp um ykkur.“