Kristín Edwald, formaður kjörstjórnar, tilkynnti úrslit í formannslagnum. Alls voru greidd 1.712 atkvæði. Hlaut Bjarni 1.010 atkvæði, 59,4%, gegn 687 atkvæðum Guðlaugs Þórs, 40,4%.
„Hjartað mitt stækkaði núna töluvert mikið. Takk kærlega,“ sagði Bjarni í stuttri ræðu sinni eftir að úrslitin voru tilkynnt.

Bjarni sagði það að gegna embætti formanns Sjálfstæðisflokksins væri með því skemmtilegasta sem hann hafi gert.
„Það verður rosalega skemmtilegt hjá okkur áfram,“ sagði hann.
Sjálfstæðismenn væru ósigrandi þegar þeir sneru bökum saman. Nú væri komið að því að bretta upp ermarnar og sækja fram.
Þórdís varaformaður og Vilhjálmur ritari
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var ein í framboði til varaformanns og hlaut 88 prósent atkvæða. Vilhjálmur Árnason þingmaður sigraði þau Bryndísi Haraldsdóttur og Helga Áss Grétarsson í kosningu um ritaraembættið.


Fylgst var með öllum tíðindum af landsfundinum í vaktinni hér að neðan: