Brynjólfur H. Björnsson, eigandi Brynju segir tilfinninguna eftir lokunina ansi skrítna eftir áratugi í bransanum. Það hafi þó ríkt gleði i búðinni í dag.
„Þetta var mjög skemmtilegur dagur, mikil traffík og fólkið náttúrulega kveður okkur og þakkar fyrir tímana alla og samveruna. Að geta farið hingað út í Brynju og náð sér í einhverja nauðsynlega hluti, það verði viðbrigði,“ segir Brynjólfur.
Hann segist ekki vita hvað taki við í rýminu en hjá honum sé næst á dagskrá að taka til í búðinni og skila af sér húsinu. Það verk klárist eflaust ekki fyrr en eftir áramót.

Brynjólfur segir húsið friðað að utan, því megi ekki breyta en sama gildi ekki um húsið innanvert.
Eftir 103 ára starf var síðasta varan sem seld var í Brynju Suzuki lyklakippa en fréttamaður okkar, Óttar Kolbeinsson Proppé var síðasti viðskiptavinur verslunarinnar.
„Þá hefur síðasta salan átt sér stað,“ sagði Brynjólfur að lokum.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í dag, á síðasta opnunardegi verslunarinnar.



