Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur kallað eftir upplýsingum frá Matvælastofnun um framkvæmd eftirlits hennar og verkferla vegna velferðar dýra. MAST hefur verið harðlega gagnrýnd undanfarið vegna eftirlits, eða skorts þar á.
„Þegar ég sé að það er verið að ganga mögulega á svig við þessa löggjöf spyr ég mína eftirlitsstofnun hvernig eftirlitinu sé háttað. Og ekki síst hvernig upplýsingamiðlun til almennings sé háttað á meðan verið er að sinna eftirlitinu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í samtali við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Í haust kom upp mál er varðar vanrækslu hrossa í Borgarfirði en í síðustu viku voru þrettán þeirra aflífuð vegna alvarlegs ástands. Nú hafa íbúar í Borgarbyggð vakið athygli á nautgripum, sem eru í umsjá sömu aðila samkvæmt heimildum fréttastofu og hafa verið innandyra undanfarin þrjú ár.
„Nú er búið að setja þau út en þau eru grindhoruð þessi dýr og eru með takmarkaðan aðgang að vatni og fóðri, sem er algjörlega óviðunandi,“ segir Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands.

MAST þurfi að nýta betur þau úrræði sem henni standi til boða, eins og að skipa tilsjónarmann með dýrum sem áhyggjur eru af.
„Það kemur okkur á óvart að það hafi ekki verið gert. Dýrin eru látin vera áfram hjá þeim aðila sem hefur verið að brjóta á þeim,“ segir Linda.
Grípa þurfi til tafarlausra aðgerða í Borgarbyggð.
„Og að þessum dýrum verði forðað og þeim veitt örugg umsjón þar sem velferð þeirra og heilsa verður tryggð.“