Ríkisstjórn Jacindu Ardern forsætisráðherra lagði nýlega fram tillögu um að leggja sérstakan skatt á losun vegna búfjárræktar. Landbúnaður er helsta útflutningsgrein Nýja-Sjálands og um helmingur allrar losunar Nýja-Sjálands kemur frá bóndabýlum. Ropandi kýr losa sérstaklega mikið metan út í andrúmsloftið.
Hagsmunasamtök bænda skipulögðu mótmæli í fleiri en fimmtíu borgum og bæjum um landið allt í dag. AP-fréttastofan segir að tugir dráttarvéla hafi tekið þátt í stærstu viðburðunum. Bændurnir halda því meðal annars fram að skatturinn yki í raun losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum því landbúnaðarframleiðslan færðist þá til annarra landa þar sem losunin væri meiri.
Dave McCurdy, bóndi sem mótmælti í Wellington, gagnrýnir að skógrækt stéttarinnar sé ekki tekin með í reikningin en hún bindur kolefni og vegur upp á móti losun búfjárins. Skatturinn hrekti fjölda bænda úr stéttinni.
„Ég er hættur. Tímasóun,“ sagði hann við AP.
Nýsjálensk stjórnvöld stefna á að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Liður í því er að draga úr metanlosun búfjárræktunar um tíu prósent fyrir 2030 og allt að 47 prósent fyrir miðja öldina.