Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu hefur lengi þrýst á ríki Vesturlanda að skilgreina Rússland sem hryðjuverkaríki vegna árása á óbreytta borgara, samfélagslega innviði, fjöldamorða og pyndinga. Honum varð loks að ósk sinni þegar þing Evrópuráðsins ályktaði með þessum hætti með skýrslu á fundi ráðsins í Strasbourg í gær.

Þar er stjórn Vladimirs Putins Rússlandsforseta skilgreind sem hryðjuverkastjórn. Zelenskyy segir ályktunina mikilvæg skilaboð til ríkja heims um að það væri ekkert um að ræða við þennan hryðjuverkahóp sem leysti úr læðingi versta stríðí Evrópu í áttatíu ár.
„Hryðjuverkum verður að mæta af krafti á öllum stigum; á vígvellinum, með refsiaðgerðum og lagalegum leiðum. Við munum setja á fót sérstakan dómstól fyrir árásarglæpi Rússa gegn Úkraínu og tryggja starfrækslu sérstaks bótakerfis þannig að Rússar svari fyrir þetta stríð með eignum sínum," sagði Zelenskyy. Rússar gætu aldrei sigrað Úkraínu.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sem situr fund Evrópuráðsþingsins segir ályktunina um Rússland hafa verið samþykkta samhljóða.

„Í raun felst í henni einróma álit Evrópuráðsþingsins að sú ríkisstjórn sem ræður ríkjum í Rússlandi sé hryðjuverka ríkisstjórn. Þetta er sögulegt að því marki að ég veit ekki til þess að nokkur alþjóðleg stofnun hafi hingað til lýst þessu yfir,“ segir Þórhildur Sunna.
Þetta væru tilmæli til þeirra 46 ríkja sem tilheyrðu nú Evrópuráðinu eftir að Rússum var vísað úr ráðinu til að virkja löggjöf gegn fjármögnun hryðjuverka og peningaþvætti gegn Rússlandi. Vonandi væri þetta byrjunin á víðtækari viðbrögðum.
„Skýrslan kallar eftir því að alþjóðlegur stríðsglæpadómstóll verði settur á fót fyrir þann glæp að hafa hafið þessa innrás. Sömuleiðis kallar hún auðvitað eftir ýmis konar aðgerðum til stuðnings Úkraínu og fordæmir enn og aftur innrásina með mjög skýrum orðum,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sem talaði frá lokadegi þings Evrópuráðsins í Strasbourg.