Verslanir og veitingastaðir eru flestir hverjir lokaðir enda lítið hægt að gera án rafmagns.
„Það er bara lokað. Þangað til annað kemur í ljós,“ segir Kristján. Hann segir áhrifin mikil.
„Það er mikið tekjutap. Ekki hægt að afgreiða eitt né neitt. Við verðum bara að sjá til.“
Kristján segir ljóst að verði ekki viðgerð fljótlega þá verði mikið af hráefni sem skemmist og endi í ruslinu. Allar vörur í frysti séu undir.
Þá bætir hann við að Svarta Perlan, gistihús á móti honum í Tryggvagötu, glími við neyðarástand. Þar hafi hann heyrt að fólk hafi fest í lyftu.
Hann vonar að málin leysist sem fyrst.
Ekkert liggur fyrir um hve lengi rafmagnsleysið vari. Í tilkynningu frá Veitum er gert ráð fyrir því að svæðið gæti verið án rafmagns langt fram á kvöld.