Bandaríska sendiráðið birti mynd af Patman og eiginmanni hennar, James V. Derrick yngri, á Bessastöðum með forsetanum og Elizu Reid forsetafrú á Twitter-reikningi sínum í gær.
New U.S. Ambassador to Iceland
— U.S. Embassy Iceland (@usembreykjavik) October 6, 2022
Today, Ambassador Carrin Patman presented her credentials to the President of Iceland, Guðni Th. Jóhannesson, becoming the new U.S. Ambassador to Iceland. @PresidentISL @elizajreid pic.twitter.com/VabZGNipdk
Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti tilnefningu Joes Biden Bandaríkjaforseta á Patman í ágúst. Hún er lögfræðingur að mennt og var meðal annars stjórnarformaður almenningssamgangna í Texas. Þá hefur hún verið áberandi í réttindabaráttu kvenna í ríkinu.
Patman tók þátt í kosningabaráttu Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins, fyrir forsetakosningarnar árið 2016 og Bidens árið 2020. Algengt er að bandarískir forsetar tilnefni pólitíska stuðningsmenn og bakhjarla í sendiherrastöður.
Eiginmaður sendiherrans var áður varaforseti og aðallögfræðingur Enron sem var eitt sinn stærsta orkufyrirtæki Bandaríkjanna. Gjaldþrot þess þegar upp komst um stórfellt bókhaldsmisferli árið 2001 var það stærsta í sögu Bandaríkjanna. Derrick bar meðal annars vitni þegar stjórnendur fyrirtækisins voru sóttir til saka.
Hún tekur við embætti sendiherra á Íslandi af Jeffrey Ross Gunter, húðlækni frá Kaliforníu sem var skipaður af Donald Trump. Sendiherratíð Gunters var stormasöm. Starfsmenn sendiráðsins voru sagðir óttast hann og samskipti Íslands og Bandaríkjanna hríðsversnað vegna hans í skýrslu sem innra eftirlit bandaríska utanríkisráðuneytisins gerði. Hópur Bandaríkjamanna á Íslandi safnaði um tíma undirskriftum til að koma Gunter úr embætti.
Gunter lét af embættinu í janúar í fyrra þegar Biden tók við embætti forseta af Trump.