Í skýrslu fjármálastöðuleikanefndar Seðlabankans í morgun kemur fram að versnandi alþjóðlegar efnahagshorfur að undanförnu kunni að hafa áhrif á íslenskan þjóðarbúskap. Verðbólga í helstu viðskiptalöndum hafi til að mynda ekki verið meiri í áratugi og seðlabankar gripið til brattra vaxtahækkana. Þá hafi stríðið í Úkraínu leitt til hærra orkuverðs.
Margt horfir þó til betri vegar samkvæmt skýrslunni. Í yfirlýsingu nefndarinnar, sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gaf í morgun, segir að mikil hækkun fasteignaverðs hér á landi hafi að mestu verið eignfjárdrifin og skuldir heimilanna fylgt tekjum síðustu ár. Heimilin hafi því ekki verið að auka skuldir sínar í hlutfalli við tekjur.

„Beiting lánþegaskilyrða á fasteignamarkaði hefur dregið úr nýjum áhættusömum lánveitingum, stuðlað að auknu hlutfalli eiginfjár og varðveitt greiðslugetu nýrra lántakenda. Þetta ásamt vaxtahækkunum hefur dregið úr spennu á fasteignamarkaði,“ sagði Ásgeir.
Seðlabankinn hefur undanfarið hækkað meginvexti sína umtalsvert til að vinna gegn verðbólgu sem innanlands hefur aðallega verið drifin áfram af mikilli hækkun húsnæðisverðs. Áshildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins gagnrýndi vaxtahækkanir Seðlabankans harðlega í sérstökum umræðum á Alþingi í gær.

„Eins og baráttunni gegn verðbólgunni hefur verið háttað eru aðgerðirnar gegn henni mun verri en verðbólgan sjálf og bitna einkum á heimilum og fyrirtækjum landsins,“ sagði Ásthildur Lóa á Alþingi í gær.
Samkvæmt nýjustu mælingum er verðbólga nú komin niður í 9,3 prósent en hún var 9,7 prósent í ágúst og fór mest í 9,9 prósent í júlí. Seðlabankastjóri segir þetta til marks um að aðgerðir bankans hafi skilað árangri.
„Þeir sem fara með slíkt mál, að aðgerðir Seðlabankans bitni verst á þeim tekjulægstu og það sé betra að hafa verðbólgu fara með öfugmælavísur. Af því að verðbólga kemur verst niður á þeim sem minnst hafa. Þannig að barátta Seðlabankans gegn verðbólgu er háð fyrir heimilin í landinu,“ sagði Ásgeir Jónsson.