Skoðun

Á­huga­leysið upp­málað

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Nú er á fimmta ár frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur settist að völdum – svo við getum séð núverandi stöðu í loftslagsmálum sem afrakstur þeirrar stefnu sem stjórnin hefur staðið fyrir. Staðan er vægast sagt ekki nógu góð.

Skýrasta dæmið eru bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar, sem sýna að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hafi aukist um 3% milli 2020 og 2021 – vegna þess að ríkisstjórnin lagði ekki grunn að grænni viðspyrnu samfélagsins eftir COVID-faraldurinn. Þetta sýnir svart á hvítu að ríkisstjórnin nýtti ekki árin á undan til að gera raunverulegar, varanlegar breytingar á grunnkerfum samfélagsins í þágu grænna umskipta.

Í ljósi þess að áhrifa COVID gætti enn árið 2021, þegar losun jókst um 3%, má leiða að því líkur að árið 2022 geti orðið enn meiri aukning á losun gróðurhúsalofttegunda. Hér kristallast vandamálið sem fylgir stefnuleysi ríkisstjórnarinnar: í loftslagsmálum er ekki nóg að vona bara það besta, heldur þarf skýrar og einbeittar aðgerðir.

Þrátt fyrir þetta heyrum við fátt annað en staðlausa stafi frá stjórnarmeðlimum. Matvælaráðherra skrifar furðulega grein í Morgunblaðið þar sem hún talar um dýrkeypt áhugaleysi og þörfina á því að sýna hugrekki í verki. Hefur ríkisstjórnin aldrei litið í spegil og séð eigið áhugaleysi í loftslagsmálum? Forsætisráðherra hefur einnig borið fyrir sig sem afsökun að hún hafi svikið loforð við Björk og Gretu Thunberg um að lýsa yfir neyðarástandi – vegna þess að þörf væri á aðgerðum, ekki orðum.

Orðin láta hins vegar ekki á sér standa, eins og raun ber vitni – stjórnarliðar eru afskaplega málglaðir þegar þarf að skrifa skrúðyrtar greinar um dirfsku og þor – en aðgerðirnar eru í engu samræmi við yfirlýsingarnar, losun eykst og áætlanirnar eru allar farnar í súginn. Leikritið var farsakennt í upphafi, en það stefnir óðum í að verða hreinn og beinn harmleikur. Sýnið okkur aðgerðirnar, og svo skulum við tala.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×