Maðurinn, sem heitir Magnús Aron Magnússon, var leiddur inn í dómsal í járnum þegar málið var þingfest klukkan þrjú síðdegis í dag.
Magnús er ákærður fyrir að hafa orðið Gylfa að bana laugardaginn 4. júní síðastliðinn fyrir utan heimili þeirra í Barðavogi í Reykjavík en þeir voru nágrannar. Fram kemur í ákærunni að Magnús hafi veist að Gylfa með ofbeldi inni á stigagangi hússins en átökin svo færst út.
Magnús er ákærður fyrir að hafa sparkað og kýlt Gylfa, fellt hann og haldið ofbeldinu áfram með spörkum og stappi á andlit og brjóstkassa. Hann hafi gengið fram með svo miklu offorsi að Gylfi hafi margbrotnað á kjálka, hlotið brot á nefbeini, kinnbeini og tungubeini auk þess sem hann hafi marist víða um líkamann og hlotið blæðingar. Áverkarnir hafi torveldað Gylfa öndun og hann látist á vettvangi meðal annars með mar á heila.
Magnús neitaði sök en að sögn verjanda hans er afstaða Magnúsar sú að andlátið hafi borið að í átökum og málalýsingar saksóknara stemmi ekki.
Níu gera bótakröfur í málinu, fjögur börn Gylfa, fjögur systkini hans og eitt foreldri. Magnús viðurkennir bótakröfur barnanna og foreldris Gylfa en hafnar bótakröfum systkina hans.
Fram kom í dómsal að tveir yfirmatsmenn hafi verið dómkvaddir 25. ágúst síðastliðinn og kapp sé lagt á að ljúka sakhæfismati. Þá fór lögmaður Magnúsar fram á að þinghald yrði lokað í málinu en saksóknari mótmælti því og lögmaður fjölskyldunnar greindi frá að hún vildi hafa þinghaldið opið. Dómari hafnaði kröfu um lokað þinghald.