„Það er auðvitað þekkt varðandi kynferðisbrotin að þau eru gjarnan tilkynnt eftir á, þannig það er í sjálfu sér ekki hægt að skoða niðurstöðuna fyrr en einhver tími er liðinn,“ segir Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu.
Hann segir að Þjóðhátíð hafi á heildina litið gengið nokkuð vel þetta árið miðað við þann gríðarlega fjölda fólks sem lagði leið sína í Herjólfsdal.

„Þessi þjóðhátíð var ívið rólegri ef það eru skoðaðar tölur, og það er svona tilfinning lögreglu að það var minni erill og þá sérstaklega föstudags og sunnudagskvöld.“ Að venju náði Þjóðhátíð vissum hápunkti á sunnudagskvöld og náði gestafjöldinn þá hámarki.
Grímur segir að það hafi verið erfitt að spá í spilin eftir að tvö ár án Þjóðhátíðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
„Við svo sem vissum ekki við hverju við ættum að búast, síðastliðin tvö ár hafa verið skrítin en þetta var bara nokkuð gott. Við erum alla vega tiltölulega sátt svona í heildina séð.“