Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir heimildum blaðsins að utanríkisríkisráðuneytið hefði farið fram á að langur viðlegukantur fyrir NATO yrði reistur norðan megin í Finnafirði við bæinn Gunnólfsvík.
Þar myndi NATO hafa aðstöðu til að birgja skip sín og hvíla áhafnir. Þá myndi Landhelgisgæslan einnig fá aðstöðu á svæðinu.
„Vegna fréttaflutnings í fjölmiðlum í morgun vill Langanesbyggð koma því að framfæri að sveitarfélaginu hefur ekki borist nein erindi frá utanríkisráðuneytinu eða NATO um uppbyggingu hafnarmannvirkja eða viðlegukants í Finnafirði,“ segir í tilkynningu á vef Langanesbyggðar.
Heimildir Fréttablaðsins hermdu að málið væri unnið bak við luktar dyr og engin skrifleg gögn væru til um það. Óformlegt erindi hefði þó borist sveitarstjórninni frá utanríkisráðuneytinu.