Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnin er skipuð en markmið hennar er að styrkja stöðu og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins. Stjórninni er ætlað að marka Landspítala langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra.
Í lögum um stjórnina segir að í henni skuli sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu, vísindarannsóknum á heilbrigðissviði , menntun heilbrigðisstétta, og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar.
Nýja stjórn skipa:
Björn Zoëga, forstjóri og bæklunarskurðlæknir, formaður stjórnar.
Gunnar Einarsson, fv. bæjarstjóri og doktor í stjórnun og menntunarfræðum.
Höskuldur H. Ólafsson, ráðgjafi og viðskiptafræðingur.
Ingileif Jónsdóttir, deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu og prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands.
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri með meistarapróf í stjórnun og stefnumótun, varaformaður stjórnar.
Varamenn eru Birgir Gunnarsson og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Þá munu tveir áheyrnarfulltrúar starfsmanna vera í stjórninni, þau Marta Jóns Hjördísardóttir, hjúkrunarfræðingur, og Örvar Gunnarsson, krabbameinslæknir. Varamaður þeirra er Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, náttúrufræðingur. Þau eru með málfrelsi og tillögurétt innan stjórnarinnar en án atkvæðisréttar.
„Ég er sannfærður um að þessi nýja stjórn muni styrkja Landspítalann. Samsetning hennar endurspeglar þá breidd og þekkingu sem þarf til að styðja vel við spítalann í allri stefnumótun, rekstri og ákvarðanatöku. Það skilar sér svo í bættu starfsumhverfi, þjónustu og getu kerfisins til að takast á við framtíðaráskoranir,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, um skipunina.