
Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu segir í einkaviðtali við AP fréttastofuna að einu skilyrði Úkraínu fyrir friðarviðræðum við Rússa séu að þeir láti af hernaði sínum í landinu. Rússar sýni hins vegar engan áhuga á því.

„Rússneska sambandsríkið segir aftur á móti að friður komist ekki á fyrr en Úkraínumenn gangi að afarkostum Rússa. Þannig virka samningaviðræður ekki. Við erum að berjast fyrir frelsi okkar, landfræðilegum yfirráðum og viljum frið," sagði Kuleba. Rússar sýni hins vegar engin merki um stöðvun átaka og sækist ekki einlæglega eftir friði.
„þeir leita leiða til að fá okkur til að ganga að afarkostum þeirra en það mun ekki gerast,“ sagði Kuleba. Úkraínumenn væru að skipuleggja og undirbúa algera frelsun hertekinna svæða. Til að það megi verða þurfi vinaríki að hraða vopnasendingum til Úkraínu.

„Margir vinna að því að hraða vopnasendingum. Við kunnum vel að meta allt það sem við höfum fengið. En eins lengi og það dugar ekki til munum við biðja um meira,“ sagði Kuleba.
Rússar hafa komið í veg fyrir útflutning Úkraínu á rúmlega tuttugu milljónum tonna af korni sem aðallega er ætlað þróunarríkjum og hafa stolið þúsundum tonna af Úkraínumönnum. Kuleba segir mikilvægt að tryggja öryggi skipasiglinga um Svartahaf .

Til þess þurfi það eyða því mikla vantrausti sem allir hafi í garð Rússa, því hvorki skipafélög né aðrir treysti því að þeir ráðist ekki á skipin. Rússar fullyrði að refsiaðgerðir Vesturlanda komi í veg fyrir útflutning þeirra sjálfra á korni en það sé alrangt.
„Rússar eru að reyna að fá refsiaðgerðir sem tengjast ekki útflutningi á korni felldar niður. Það er það kaldrifjaða í málinu; að þeir spila út hungurspilinu og stefna þar með lífi milljóna manna í Afríku og Asíu í hættu. Einfaldlega vegna þess að þeir vilja knýja Vesturlönd til að aflétta refsiaðgerðum þeirra," segir Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu.