Hægt og rólega hefur vefverslun með áfengi orðið algeng á Íslandi.
Frá því að fyrirtækið Bjórland hóf að selja áfengi fyrir tæpum tveimur árum síðan hafa fleiri fyrirtæki komið sér á fót og gert slíkt hið sama.
Vefverslun íslenskra fyrirtækja með áfengi hér á landi er þó bönnuð samkvæmt lögum. Hægt hefur verið að komast fram hjá þessu með því að opna fyrirtæki erlendis sem selur áfengið en vera með innlent fyrirtæki sem dreifir því.
„Það eru auðvitað fordæmi fyrir þessu nú þegar og þar af leiðandi teljum við okkur ekki vera að gera neitt óeðlilegt. Auk þess að þá hafa viðskiptavinir, bæði Heimkaupa og annarra verslana, verið að kalla eftir þjónustu sem þessari,“ segir Pálmi Jónsson, forstjóri Heimkaupa, í samtali við fréttastofu.

Heimkaup selur áfengið þannig í gegn um danska fyrirtækið Heimkaup ApS en dreifa því með Heimkaupum á Íslandi.
„Ef að þú kaupir í dag áfengi á netinu, til dæmis á Amazon, og færð það sent með póstinum. Pósturinn kemur því til þín. Þetta er í raun svipuð þjónusta og við erum að veita,“ segir Pálmi.
ÁTVR hefur sett sig mjög upp á móti þessum vefverslunum og reynt að reka mál gegn þeim. Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði þeim þó frá og telur stofnunin það ekki lengur í sínum verkahring að reyna að sporna gegn þessari þróun. Það verði löggjafinn að gera. ÁTVR vildi ekki tjá sig um vefverslun Heimkaupa með áfengi þegar eftir því var leitað.
„Staðan er bara sú að þetta er leyfilegt í öllum öðrum löndum í Evrópu. Því miður er ekkert hægt að koma í veg fyrri þessa þróun til lengri tíma,“ segir Pálmi.
Og nú verður í fyrsta skipti hægt að versla bæði matvöru á áfengi í sömu verslun á Íslandi.
„Þetta er bara þannig núna geturðu keypt í matinn og fengið rauðvín með steikinni eða bjór með leiknum. Þannig að þetta er töluverð breyting frá því hvernig þetta hefur verið á Íslandi,“ segir Pálmi.
Fréttin var uppfærð klukkan 16:56: Upprunalega stóð að Santé hefði riðið á vaðið með netsölu á áfengi hér á landi. Vefverslunin Bjórland kom hins vegar nokkru á undan.