Greint var frá þessu á vef RÚV í dag. Í samtali við Vísi segir Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar að verið sé að vinna í því að koma skilti með aðvörunarljósunum upp. Vilji sé fyrir því að það gerist sem fyrst.
Umræða um öryggi ferðamanna í Reynisfjöru blossar reglulega upp, nú vegna banaslyss sem þar varð á dögunum þegar erlendur ferðamaður lést eftir að alda hreif hann út í sjóinn.
Alls hafa tólf alvarleg útköll borist vegna Reynisfjöru frá árinu 2014, þar af hafa fimm látist.
Lengi hefur verið talað fyrir því að koma upp viðvörunarkerfi við fjöruna, og nú hyllir undir að það verði að veruleika.
Eftir banaslysið fyrr í mánuðinum var haldinn samráðsfundur stjórnvalda með landeigendum í Reynisfjöru, þar sem allir sem áttu sæti á fundinum voru sammála um að ljúka ætti uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni.Þar kemur Vegagerðin inn en árið 2017 fékk stofnunin styrk til að útbúa spálíkan um ölduhæð í Reynisfjöru, sem aðgengilegt er hér.
Stefnt er að því að viðvörunarljósið verði tengt við þetta spálíkan. Litakóðarnir grænt, gult og rautt munu tákna hættuna.
Mismunandi ljós eftir mismikilli hættu
Að sögn Fannars mun viðvörunarkerfið virka þannig að ef spálíkanið gefur litakóðan grænan þá mun gult viðvörunarljós blikka, litakóðinn gulur gefur stöðugt gult ljós á skiltinu og rautt ljós kemur á skiltinu þegar hættan er talin vera rauð.
Sjá má á vefsíðu spákerfisins að hættan í dag og næstu daga er metin blá, sem er með allra minnsta móti.

Einnig verða settar upp myndavélar sem starfsmenn Vegagerðarinnar geta notað til að kvarða kerfið ef eitthvað gerist sem núverandi spálíkan nær ekki yfir. Þá mun kerfið einnig mögulega þróast eftir því sem reynsla á notkun þess fæst.
Þannig segir Fannar að í sumum tilvikum sé mikil sjávarhæð orsök slysa við Reynisfjöru, fremur en mikil ölduhæð, en þá geta öldunar borist upp að klettinum fræga í fjörunni sem er vinsæll ljósmyndastaður.
„Kannski í framtíðinni verður það svoleiðis að þegar sjávarhæð er x þá bara kemur rautt,“ segir Fannar.
Sem fyrr segir er unnið að því að koma kerfinu upp og standa vonir til þess að það geti verið komið í gagnið í næsta mánuði.