Framsóknarflokkurinn, Píratar, Samfylkingin og Viðreisn ákváðu í vikunni að hefja formlegar meirihlutaviðræður.
Fulltrúar flokkanna funduðu í veðurblíðunni í Elliðaárdlanum í dag. Alexanda ræddi ganginn í viðræðunum í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Bara býsna vel held ég. Það er búið að vera mjög góður dagur í dag og góður dagur í gær. Í gær og dag vorum við mest að ræða barnamálin. Í dag fórum við líka í velferðina og náðum aðeins að koma inn á íþróttamálin. Í rauninni gengur bara mjög vel og ég leyfi mér að vera nokkuð bjartsýn,“ sagði Alexandra.
Bætti hún við að veðrið hafi ekki skemmt fyrir og fulltrúarnir hafi meðal annars leyft sér að njóta veðurblíðunnar í dag.

Segir hún enn fremur að ekki sé byrjað að ræða mögulega skiptingu embætta á milli flokka. Málefnin verða rædd fyrst.
„Við viljum helst vera með góða málefnalega lendingu áður en við förum að velta hinu of mikið fyrir okkur. Það er líka bara skynsamlegt,“ sagði Alexandra.
Píratar útiloka ekki borgarstjórastólinn
Mikið hefur verið rætt um að annað hvort Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar verði áfram borgarstjóri, eða að Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, fái það hlutverk.
En hvað með Pírata, vilja þeir ekki fá þann stól?
„Við útilokum það ekki þegar þar að kemur. Það er augljóst skilaboðin frá Reykvíkingum að þeir vilji sjá aðeins meiri Pírata. En við þurfum ekki að pæla í því núna, þetta er allt til umræðu.“
Þá segist hún ekki geta sagt til um hvenær lending fæst í viðræðurnar, þó Alexandra voni að það verði fyrir fyrsta borgarstjórnarfund nýs kjörtímabils, þann 7. júní næstkomandi.
„Við verðum bara að fá sjá til.“
Rætt var við Alexöndru í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Sjá má á viðtalið í klippunni hér að neðan. Viðtalið hefst þegar um ein og hálf mínúta er liðin af myndbandinu.