Rætt var við Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar í borginni, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 skömmu áður en fundurinn hófst. Hann sagðist enga skoðun hafa á því að flokkarnir þrír hefðu myndað með sér bandalag. Slíkt bandalag fækkar til muna mögulegum meirihlutasamsetningum í borginni.
„Þetta eru stjórnmálaflokkar sem taka sínar ákvarðanir og þeir hafa ákveðið að gera þetta, telja hagsmunum sínum best borgið með því að mynda þetta bandalag. Þá er það bara þannig. Við í Framsókn buðum okkur fram til þess að láta gott af okkur leiða og nú ætlum við hér á eftir að ræða hvernig okkar næstu skref verða. Ég bara hlakka til þess fundar,“ sagði Einar.
Hildur verði að horfast í augu við stöðu síns flokks
Fyrr í dag birti Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, færslu á Facebook þar sem hún skoraði á Framsókn að ganga ekki til viðræðna við bandalagið. Sagði hún niðurstöður borgarstjórnarkosninganna skýrar. Kjósendur vildu breytingar, enda hefði meirihlutinn fallið. Þá kallaði hún bandalag flokkanna þriggja þrjóskubandalag sem „þráskallast við að halda völdum sem kjósendur vilja ekki fela þeim lengur.“
Inntur eftir viðbrögðum við þessum orðum Hildar sagði Einar:
„Já, já. Við tökum bara okkar ákvarðanir, á okkar forsendum og með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi. Ég skil vel að Hildur sé súr yfir þessu, af því að það eru flokkar sem hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hún þarf kannski bara að horfast í augu við það og finna út úr því hvers vegna það er.“
Spurður hvort hann byggist við heitum orðaskiptum á fundi kvöldsins, þar sem staðan í borginni og næstu skref Framsóknar verða rædd, sagði Einar að í flokknum væru margar skoðanir, líkt og í öðrum stjórnmálaflokkum.
„Mér þykir bara mjög mikilvægt að ræða málin, eiga gott samtal við grasrótina á þessum tímapunkti og svo tökum við bara stöðuna eftir hann.“