Bráðabirgðaniðurstöður úr tilraunum með bóluefnið á meðal barna á aldrinum sex mánaða til fjögurra ára benda til þess að þrír skammtar af því veiti vernd gegn einkennum í 80% tilfella. Hver skammtur sem börnin fá er aðeins einn tíundi hluti af þeim sem fullorðnir fá.
Sá fyrirvari er á niðurstöðunum að aðeins tíu börn af 1.600 sem tóku þátt í tilrauninni greindust smituð. Fjöldinn hefði þurft að ná 21 til þess að teljast gilt. Pfizer lofar að uppfæra niðurstöður sínar þegar frekari gögn liggja fyrir, að sögn AP-fréttastofunnar.
Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) fer nú þegar yfir gögn frá Moderna sem vill gefa börnum tvo skammta af bóluefni í sumar. Börn undir fimm ára aldri eru um átján milljónir talsins í Bandaríkjunum og eini hópurinn þar í landi sem er ekki gjaldgengur til að vera bólusettur gegn Covid-19.